Útrýmingarbúðir peningavaldsins

„Maður á að bera harm sinn í hljóði“ segir einhvers staðar og þeir eru greinilega margir sem hafa ákveðið að hlýta þessu misráði. Þegar viðbrögðin sem þeir, sem brjóta hlekki þessara orða, mæta eru skoðuð er það kannski ekki skrýtið að fólk veigri sér við því að stíga fram og segja sögu sína. Hér er einkanlega átt við sögur sem tengjast því að missa atvinnu og eignir; standa frammi fyrir gjaldþroti.

Áfallið sem siglir í kjölfar slíks er miklu meira en nóg fyrir sérhvern að bera þó við það bætist ekki álag vegna sleggjudóma þeirra sem taka það að sér að gerast sérfræðingar í aðstæðum fólks sem það þekkir oft og tíðum ekki neitt. Í þessu ljósi verður sagan sem verður rakin hér höfð nafnlaus.

Þetta er saga á bak við tárin sem Tunnan sem segir hana hér horfði flæða niður svipbrigðalausar kinnar 30 ára karlmanns sem er á örorkubótum. Sagan var sögð um miðjan febrúar og er tekið mið af því við endursögn hennar.

Honum er ætlað að lifa á 150.000,- á mánuði. Þessir peningar eiga að duga honum fyrir öllu því sem peningakerfið hefur ákveðið að er aðeins ætlað þeim sem peningamaskínan hefur Útrýmingarbúðir peningavaldsinsútvalið. Þetta eru atriði eins og: það að borða, búa undir húsþaki, komast á milli staða, sinna eigin heilsu, ástunda einhverja uppbyggilega afþreyingu o.s.frv. o.s.frv.

Nú er svo komið að ungi maðurinn sem grét á EKKERT annað eftir en að halda í þakið og reyna að ráðstafa því sem er eftir fyrir mat til að borða út mánuðinn. Eina von hans um það að komast úr landi var bílinn sem hann gat ekki selt en hefur sennilega verið tekinn af honum núna vegna vangoldinna rekstrargjalda.

Tár hans fóru ekki að flæða fyrir alvöru fyrr en hann sagði frá því að hann væri nýbúinn að missa tvo bestu vini sína. Þeir voru í sömu stöðu og hann hefur verið í frá því í byrjun desember. Hann missti þá báða fyrir það að þeir gáfust upp og sviptu sig lífi með stuttu millibili.

Það versta var samt það þegar hann sagði að þar sem hann hefði leitað sér hjálpar og reynt að vekja athygli á stöðu sinni fyndi hann fyrir fyrirlitningu og skilaboðum um að hann beri sjálfur ábyrgð á öllu saman! Spurningin er: Hvernig ber hann ábyrgð á því að honum er ætlað að lifa á 150.000 á mánuði þegar það er sama stjórnsýsla sem skammtar honum þessa upphæð og „tjúnnar“ upp verðlagið!?!?

Óneitanlega hvarflaði það að Tunnunni sem horfði á társokkin en sviplaus augun í svipbrigðalausu andliti unga mannsins, sem sagði henni sögu sína, hvort hún ætti að gera eitthvað meira en þrýsta handlegg hans og krefjast þess að hann léti sjá sig aftur eftir hálfan mánuð eins og til stóð þá.

Kannski er endursögn þessarar sögu örvona viðleitni til að gera eitthvað pínulítið meira...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband