Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2014

Lýðræði

  Þegar stórt er spurt er fátt um svör. Þegar hinn litli heimur sem við búum í logar í ófriði og mótmælum gagnvart lýðræðislega kjörnum spilltum ríkisstjórnum, spyr maður sig kannski:Hvað er ólíkt með Úkraínu og Íslandi. Jú við höfum ekki her sem stjórnvöld geta beitt á móti okkur. Við höfum hins vegar lögreglu sem notuð er gegn okkur og ýmsir stjórnmálamenn hafa sýnt áhuga fyrir að vopnbúa.

Úkraínskur almenningur býr við sára fátækt og kúgun. Þegar litið er á meðallaun á Ísland verður ekki séð að hér ríki fátækt. Meðallaun eru nokkuð góð, en þegar grannt er skoðað (af okkur tunnum) kemur í ljós að einungis 16 prósent ná launum yfir meðaltali og skekkja meðallaun langt yfir raunveruleikann. Og kúgun þekkjum við ekki. Hér er engum persónuupplýsingum lekið, engin samskifti hleruð og stjórnvöld vinna algjörlega í takt við þjóðina í landinu. Rammaáætlun er virt en aðeins sveigð til eftir hvað þurfa þykir enda ekkert í húfi nema nokkrir landskikar sem er jú nóg af á þessu landi.

En hvað veldur því að uppúr sýður í Úkraínu:Getur verið að forseti landsins hafi verið lenda í sjónvarpsviðtali þar sem hann kom út eins og bjáni. Eða getur verið að utanríkisráðherrann hafi verið að setja lög sem gengu þvert á vilja landsmanna. Fór kannski íþróttamálaráðherrann í heimsókn sem landsmenn voru ekki sáttir við.Eða voru þeir að fikta við seðlabankann sinn. Eða var forsetinn að samþykkja stóra skattalækkun á sjálfan sig. Alla vega er ljóst að í Úkraínu er stór munur á stjórn og stjórnarandstöðu og aumingja forsetinn eingöngu að gera það sem hann taldi sig kosinn til að gera.

Maður spyr sig: er almenningur í Úkraínu svo öruggur með sína persónulegu stöðu að hann geti leyft sér að taka þátt í andófi eða er almenningur svo óöruggur með stöðu sína að hann telur sig engu hafa að tapa. Spyr sá sem ekki veit. Það er hins vegar ljóst að lögreglan þar vissi hvaða hóp hún tilheyrði. Og þegar við náum þeim stað á Íslandi stöðvar okkur ekkert.


Hvað er til ráða

Komið sæl. Langt er síðan heyrst hefur í okkur.

  Því hefur verið haldið fram meðal almennings að nýkjörin stjórnvöld þurfi tíma til að sanna sig. Einhvern veginn líður okkur þannig að hún sé búin að afsanna sig. Hver ræður eiginlega í þessu landi. Og þá á ég við: hver er það sem raunverulega stjórnar. Eru það lífeyrissjóðirnir bankarnir ríkisstjórnin eða stéttafélögin og samtök atvinnulífsins.

 Hvar er okkar ábyrgð gagnvart lýðræðinu og að beita stjórnvöld aðhaldi. Eða er það viðunandi að hafa tekjur undir lágframfærslu. Og er það viðunandi að fólk hafi ekki húsaskjól heldur þurfi að hola sér niður á dýnu hjá ættingjum og vinum. Biðraðir eftir þjónustu hjálparstofnanna er þjóðarskömm. Og ekki er minni skömm að aðbúnaði eldri borgara sem eru í orðsins fyllstu merkingu tjóðraðir niður í rúmin sín vegna manneklu og matarföng sannarlega skorin við nögl. Er einhver sanngirni í þessu meðan fyrirtæki í okkar eigu (þ.e. lífeyrissjóðanna) skammtar stjórnendum sínum bónusgreiðslur og sposlur sem í þessu samhengi sem ég hef verið að lýsa eru í besta falli fáranlegar eða þá hlægilegar ef við viljum jákvætt orð.

 Höfum við virkilega gefið stjórnvöldum það vopn að hræða okkur frá friðsömu andófi eins og var þeirra greinilega markmið í níumenningamálinu forðum og hinu nýja níumenningamáli Hraunavina. Borgaraleg óhlýðni og lögbrot eru í mínum augum sinn hvor hluturinn. Mér þykir við vera huglaus eða þá bara villt hvað við viljum. Ég myndi gjarnan vilja sjá í hvaða forgangi fólk vill hafa málin. Og það myndi gleðja mig meira en orð fá lýst, ef fólk væri tilbúið að fara að leggja öfund og afbrýðisemi á hilluna og fara að vinna saman í að fara að gera eitthvað í málunum.

 Ég myndi vilja varpa þeirri spurningu fram með þessu bloggi: hvað viljum við, hvernig teljum við hægt að ná því fram og hvað erum við reiðubúin að leggja á okkur til að ná því fram


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband