Bloggfærslur mánaðarins, september 2012

Stefnuræðukvöldið nálgast

Nú er rétt tæp vika í að 12. september renni upp en að kvöldi þess dags mun Jóhanna Sigurðardóttir að öllum líkindum flytja sína síðustu stefnuræðu á Alþingi sem forsætisráðherra.

Tunnurnar verða að sjálfsögðu á staðnum til að minna hana og aðra þingmenn á hvernig heimilin í landinu hafa verið skilin eftir fyrir önnur misbrýn mál. Tunnunum svíður fyrir hönd heimilanna og almennings sem hefur þurft að bera afleiðingar þess efnahagshruns sem varð hér haustið 2008 af fullum þunga á meðan gerendum þess hefur verið hossað.

Stefnuræða forsætisráðherra hefst kl. 19:50 n.k. miðvikudagskvöld en hávaðinn fyrir utan alþingishúsið hefst kl. 19:30. Stofnaður hefur verið viðburður af þessu tilefni á Facebook og hvetjum við lesendur þessa bloggs til að deila honum og dreifa og láta þá sem ekki eru þar vita líka.

Við hvetjum alla til að mæta með öfluga hljóðgjafa eins og trommur, lúðra, dómaraflautur og brunaboða en þeir sem ætla að taka þátt í dunandi tunnuslættinu er bent á að taka með sér gott ásláttaráhald úr járni og vera í góðum hönskum til að verja hendurnar. Af fenginni reynslu frá fyrri tunnuviðburðum er líka nauðsynlegt að vera með eyrnatappa eða heyrnarhlífar.

Að lokum er hér svolítið upphitunarmyndband:


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband