Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2012
tunnudraumur
28.4.2012 | 17:25
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þegar uppi er staðið....
19.4.2012 | 22:18
Nú sitjum við uppi með hreina vinstri stjórn, sem loksins hefur tækifæri til að afnema verðtryggingu og bæta lífskjör almennings. Það eina sem hún hefur gert í þeim málum er akkúrat EKKI NEITT!
Aftur á móti erum við enn og aftur með stjórnarandstöðu sem heldur uppi málflutningi um afnám verðtryggingar og bætt lífskjör almennings, nema nú eru það fyrrum stjórnarflokkar sem eru með þennan málflutning. Flokkar sem gerðu ekkert í neinu á meðan þeir voru í stjórn.
Þegar uppi er staðið gott fólk sitjum við uppi með sama grautinn í sitt hvorri skálinni. Við vorum auðtrúa og einföld og héldum í alvöru að NÚ myndi það gerast, að NÚ myndu kjör almennings verða sett á oddinn.
Þegar uppi er staðið gott fólk er logið að okkur frá hægri og vinstri og eina vörnin sem við eigum eftir erum við sjálf og samstaðan og mannkærleikurinn sem við höfum gagnvart hvort öðru sem almenningur þessa lands.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Útrýmingarbúðir peningavaldsins
12.4.2012 | 16:19
Maður á að bera harm sinn í hljóði segir einhvers staðar og þeir eru greinilega margir sem hafa ákveðið að hlýta þessu misráði. Þegar viðbrögðin sem þeir, sem brjóta hlekki þessara orða, mæta eru skoðuð er það kannski ekki skrýtið að fólk veigri sér við því að stíga fram og segja sögu sína. Hér er einkanlega átt við sögur sem tengjast því að missa atvinnu og eignir; standa frammi fyrir gjaldþroti.
Áfallið sem siglir í kjölfar slíks er miklu meira en nóg fyrir sérhvern að bera þó við það bætist ekki álag vegna sleggjudóma þeirra sem taka það að sér að gerast sérfræðingar í aðstæðum fólks sem það þekkir oft og tíðum ekki neitt. Í þessu ljósi verður sagan sem verður rakin hér höfð nafnlaus.
Þetta er saga á bak við tárin sem Tunnan sem segir hana hér horfði flæða niður svipbrigðalausar kinnar 30 ára karlmanns sem er á örorkubótum. Sagan var sögð um miðjan febrúar og er tekið mið af því við endursögn hennar.
Honum er ætlað að lifa á 150.000,- á mánuði. Þessir peningar eiga að duga honum fyrir öllu því sem peningakerfið hefur ákveðið að er aðeins ætlað þeim sem peningamaskínan hefur útvalið. Þetta eru atriði eins og: það að borða, búa undir húsþaki, komast á milli staða, sinna eigin heilsu, ástunda einhverja uppbyggilega afþreyingu o.s.frv. o.s.frv.
Nú er svo komið að ungi maðurinn sem grét á EKKERT annað eftir en að halda í þakið og reyna að ráðstafa því sem er eftir fyrir mat til að borða út mánuðinn. Eina von hans um það að komast úr landi var bílinn sem hann gat ekki selt en hefur sennilega verið tekinn af honum núna vegna vangoldinna rekstrargjalda.
Tár hans fóru ekki að flæða fyrir alvöru fyrr en hann sagði frá því að hann væri nýbúinn að missa tvo bestu vini sína. Þeir voru í sömu stöðu og hann hefur verið í frá því í byrjun desember. Hann missti þá báða fyrir það að þeir gáfust upp og sviptu sig lífi með stuttu millibili.
Það versta var samt það þegar hann sagði að þar sem hann hefði leitað sér hjálpar og reynt að vekja athygli á stöðu sinni fyndi hann fyrir fyrirlitningu og skilaboðum um að hann beri sjálfur ábyrgð á öllu saman! Spurningin er: Hvernig ber hann ábyrgð á því að honum er ætlað að lifa á 150.000 á mánuði þegar það er sama stjórnsýsla sem skammtar honum þessa upphæð og tjúnnar upp verðlagið!?!?
Óneitanlega hvarflaði það að Tunnunni sem horfði á társokkin en sviplaus augun í svipbrigðalausu andliti unga mannsins, sem sagði henni sögu sína, hvort hún ætti að gera eitthvað meira en þrýsta handlegg hans og krefjast þess að hann léti sjá sig aftur eftir hálfan mánuð eins og til stóð þá.
Kannski er endursögn þessarar sögu örvona viðleitni til að gera eitthvað pínulítið meira...
Bloggar | Breytt 13.4.2012 kl. 08:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ekkert.......
10.4.2012 | 23:07
Þegar stappið við fjármálastofnanir er farið að kosta grát, krafta og þunglyndi, hverjum er þá ekki sama hvort bjallan á þingi glymji tvisvar eða tíu sinnum.
Hvers vegna ætli þingmenn séu ekki að rífast um það sem skiptir mestu máli í íslensku þjóðfélagi, lífsafkomu þegna þess? Er enginn þingmaður sem finnst íslenskur almenningur skipta það miklu máli að lífsafkoma hans sé þess virði að rífast og þrasa yfir?
Ekkert heyrum við um verðtryggingu og afnám hennar, ekkert heyrum við um leiðréttingu lána vegna forsendubrestsins sem var við hrun, ekkert heyrum við um stöðvun uppboða.
Við heyrum EKKERT sem kemur almenningi til góða.
EKKERT er það sem okkur var útdeilt og EKKERT er það sem við sitjum uppi með.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Í dag
8.4.2012 | 16:29
Skömmin sem ætti að vera geranda hefur færst yfir á þá sem við þetta ástand búa enda eru þeir sem rísa upp öðrum til varnar gjarnan níddur niður af samfélaginu. Niðurskurður er löngu kominn út fyrir öll sársaukamörk og ekkert eftir að skera niður hjá þessum hluta nema fólkið sjálft. Mig furðar samstöðuleysi og skeytingarleysi fólks gagnvart þessum hópi.
Þar sem nú er stórhátíð í kristinni trú mætti staldra við og hugleiða: Var þetta boðskapurinn sem þessi trúarbrögð kenndu okkur. Var okkur kennt að hver ætti að skara eld að eigin köku, og hrifsa sem mest af kökum annara. Var okkur kennt að líta niður á og skapa skömm hjá þeim við lakari kjör búa. Og var okkur kennt að vega hvert annað í kapphlaupi kringum gullkálf. Erfitt er að finna fyrirmyndir um annað í samfélaginu
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Krossfestingar og langir föstudagar
6.4.2012 | 13:58
Það þarf sennilega ekki að segja það neinum að ástæða þess að kristin samfélög minnast föstudagsins langa er sú að þann dag var réttlætið krossfest í manninum Jesú á hæðinni Golgata. Samkvæmt sögunni benti náttúran, þeim almenningi sem upp á þetta horfði, á villuna með eftirminnilegum hætti: Og nú var nær hádegi og myrkur varð um allt land til nóns, því sólin missti birtu sinnar. (Biblían 1997: Lúk 23.44-45)
Þessi atburður hefur síðan verið táknmynd vegvillts almennings sem lætur leiða sig til þvílíkrar fíflsku að það lætur blekkjast til krossfestingar eigin bjargræðis. Því er þetta rifjað upp nú, nær tvöþúsund árum síðar, að það eru margar blikur á lofti um það að almenningur muni aftur ganga sömu leið. Reyndar ekki í krossfestingu bróður heldur fósturjarðar.
Ísland sem var pínt á dögum Davíðs og krossfest á dögum Jóhönnu... látum það ekki verða örlög þess að eyðast til dauða, grafast í öldur hafsins og stíga niður til heljar! Látum valdhafana ekki fífla frá okkur bjargræðið í skjóli æðstu presta og hermanna eins og gert var fyrir tvöþúsund árum!
Að þessu sinni skulum við standa saman um réttlætið gegn þeim gerræðisráðum sem reyna að hafa það af okkur. Sýnum skynsemi og dirfsku og losum landið okkar úr gálganum sem því hefur verið búinn!
Sýnum að saga mannsins er framþróun en ekki endurtekið efni í sífellt ýktari mynd!
(Kannski veðurfarið breytist til batnaðar í kjölfarið)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Tilraunaeldhúsið Grikkland
5.4.2012 | 16:38
Mörgum finnst hún eflaust þægileg fjarlægðin frá því sem þeir vilja ekki sjá. Þetta hefur greinilega átt við um Grikkland sem margir Íslendingar láta eins og þeim komi ekki við um þessar mundir. Sumir auka enn í fjarlægðina sem er á milli landanna og tyggja upp eineltisfrasa varganna sem hafa sest um fjöregg grísku þjóðarinnar.
Efnahagsböðlarnir sem ráða grimmum örlögum Grikkja hafa verið kallaðir þrenningin en þeir eru: Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, Seðlabanki Evrópu og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn. Íslendingar ættu allir að þekkja afleiðingarnar af aðgerðarpakka AGS hér á landi þó þeir séu alltof margir sem þykjast ekki sjá þær þrátt fyrir að þær séu upp við nefið á þeim.
Íslendingar hafa líka fengið smjörþefinn af því hvaða fjármálaþvingunum ESB-hagsmunaklíkan beitir þær þjóðir sem eru fjármálavaldinu ekki undirgefnar í gegnum Icesave-hasarþættina þrjá. Það vekur auðvitað athygli að meðulin eru reyndar þau sömu og AGS beitir í sínu þvingunarstríði gegn þjóðum sem hafa orðið fyrir efnahagsáföllum.
Það vekur líka athygli þeirra sem hafa lagst yfir að kynna sér það sem fram fer í Grikklandi að þar verða fyrir manni sömu pyntingartólin og var beitt gegn íslensku þjóðinni í þeim Icesaveþáttum sem við höfum þegar horft upp á en þetta eru: bresk lögsaga tekur yfir rísi upp ágreiningur um fjárhagslegu þvingunaraðgerðinar, hollenskur fjármálaráðherra belgir sig út og fnæsir og hvæsir svo er það Lee nokkur Buchheit sem veitir hollvinaráð varðandi þjóðarskuldavandann.
Efnahagshremmingarnar sem gríska þjóðin hefur þurft að þola eru ólýsanlegar en ástandið minnir svo sannarlega á lönd Afríku og Suður-Ameríku þar sem nýlenduherrar fóru yfir með miskunnarlausum græðgislúkum sem engu eirðu. Gríska þjóðin hefur reynt að vekja athygli á þessu og kallað til annarra þjóða í yfir hálft ár. Fæstir hafa hlustað og á meðan eykst neyðin.
Sumir hafa bent á að hörmungarnar sem efnahagsböðlarnir hafa leitt yfir Grikkland sé bara forsmekkurinn eða generalprufan að því sem bíður annarra þjóða. Þar á meðal Íslendinga. Komist peningamafían upp með það að fara svona með Grikki þá breiðist faraldurinn út. Það er því ljóst að á meðan fólk situr með hendur í skauti eða vinnur hvert í sinni mauraþúfu þá breiðist eignaupptökufaraldurinn út og brýtur sér leið inn fyrir þröskulda hvers einasta heimilis sem ekki er merkt eigna- og peningaelítunni.
Það er nefnilega enginn munur á Grikkjum og öðrum þjóðum í augum efnahagsböðlanna sem engu eira. Þetta veit grískur almenningur sem hefur reynt að ná eyrum annarra evrópuþjóða.
Bloggar | Breytt 6.4.2012 kl. 01:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Skýr krafa
3.4.2012 | 17:12
4000 barnafjölskyldur sem ná ekki endum saman eru 4000 fjölskyldum of margar.
1 5 manna fjölskylda á leið á götuna er einni fjölskyldu of mikið á leið á götuna.
Einn öryrki sem á ekki til hnífs og skeiðar er einum of margir.
Einn ellilífeyrsiþegi sem fær ekki þá þjónustu sem hann þarf vegna kostnaðar er einum ellilífeyrisþega of margir.
Hemilin og borgarar þessa land eru hryggjastykki samfélagsins og það hlýtur að vera markmið hverrar ríkisstjórnar sem situr við völd að þessir aðlar hafi það sem allra best no matter what. Þetta HLÝTUR að vera aðalatriði og ekki aukaatriði í samfélagssáttinni.
Krafan er því skýr á allan máta. "Hættið að horfa á aukatriðin og farið að einbeita ykkur að aðalatriðunum sem er velferð almennings á kostnað fjámaálaelítunnar".
Tunnurnar eru ennþá til..........
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)