Bloggfærslur mánaðarins, október 2012

Drómi Über Alles

Ég geri mér grein fyrir að allir eru búnir að fá uppí kok af vælupóstum og ég á svo bágt bréfum en sorry þið verðið að þola eitt enn. Ég tel mig reyndar ekki vera mikið í vælinu og mun því hafa þetta eins skýrt og skorinort og ég get. Ég ætla að segja ykkur smá sögu af skilnaðarsamningum og lánum, kannski er einhver sem getur nýtt sér þetta til að lenda ekki í sama pytti og ég.

Ég skildi fyrir nokkrum árum síðan og gengið var frá samning um skipti eigna og lána hjá lögfræðingi og síðan var farið með hann til sýslumanns þar sem hann var lesinn hann yfir og við samþykktum með undirskrift okkar beggja.
Þið vitið hvernig þetta virkar, 50/50 lán og eignir á kjaft!
Ég hélt húsinu og xið mitt fékk fyrirtækið. Ég tók þau lán sem fylgdu húsinu og hann það sem fylgdi fyrirtækinu. Allt rosa jafnt skipt og flott, ekkert vesen.
Reyndar voru lánin áhvílandi á húsinu og fékk xið mitt 6 mánuði til að færa sitt lán annað. Ekkert mál.
Tvö lán höfðu verið tekin til að kaupa fyrirtækið á sínum tíma, annað hvíldi á mínu húsi, hitt á húsi hins eiganda fyrirtækisins.
Sex mánuðum seinna bankaði kreppan uppá og fyrirtækið fór á hausinn.
Hey og ég enn með lánið á húsinu. Og ekki bara hvaða lán sem er heldur var það frá SPRON sem fór líka á hausinn.
Þar með hófust náin kynni mín af Dróma og þeim sem þar starfa. Viðurkenni fúslega að ég hefði alveg verið til í að sleppa þeim samskiptum enda fæ ég hroll bara við tilhugsunina.
Fundir, tölvupóstar, símtöl, fleiri fundir, fasteignamat.. og aðeins fleiri fundir.
Ég komst að því fljótlega að skilnaðarsamningur er ekki löglegur þegar kemur að lánum því að ef annar aðilinn ákveður að standa ekki við sinn hluta þá verður hinn aðilinn að fara í einkamál. Ef ég hefði gert það þá hefði ég klárlega unnið málið en xið var búið að tapa eignum sínum og eina sem ég hefði haft uppúr málaferlum hefði verið lögfræðikostnaður. Lánið fer ekkert nema það sé fært á aðra eign.
Nú gætuð þið spurt ykkur hvort að ekki hafi amk verið greitt af láninu? Svarið við því er nei. Engin greiddi af láninu. Ég hef ekki laun til þess og auðvitað er þetta heldur ekki mitt að greiða.
Ég skrifaði undir samning sem ég taldi að tryggði mig og að bankinn þyrfti að ganga á eftir xinu en ég slyppi.. enda með UNDIRRITAÐAN samning í höndunum. Sé það í dag að þetta var greinilega barnaleg hugsun.
Jæja, hinn eigandi fyrirtækisins missti allt sitt og var gerður upp á síðasta mánuði (bæði fyrirtæki og aðrar eignir). Greitt var inná lánin hans og restin væntanlega afskrifuð. Eftir stendur eitt lán! Lánið sem hvílir á mínu húsi. Allt annað sem varðaði fyrirtækið er uppgert. Og við erum að tala um fullt af milljónum sem hafa verið afskrifaðar í tengslum við fyrirtækið þvi að SPRON lánaði svakalegar upphæðir sem ekki var til fyrir. Lánið sem hvílir á mér er bara smábarn í samanburði.
Hmmm og af hverju er ég reið núna?
Jú því að ég fékk símtal frá Dróma þar sem mér var sagt að "mitt" lán yrði inní þessum samningspakka. Við það var ekki staðið.
Ég sendi tölvupóst í morgun (sjá neðst) sem ég hef reyndar ekki fengið svar við en mér er alveg sama. Ég veit að það er engin lausn á þessu máli.

Drómi vill sitt og nú er bara að bíða eftir að þeir heimti uppboð. Þeir reyndar fá ekkert útúr þvi, vegna þess að á húsinu hvíla lán og ég efast um að það náist að greiða upp þau lán sem eru á veðrétti á undan Dróma. Þetta hefur starfsmaður Dróma viðurkennt að sé rétt en til þess að allt líti vel út á pappír þá er betra að keyra mig í þrot þó svo að þeir fái engan pening.

Bréfið til slitastjórnar Dróma:

Sæll Xxxx

Þú hringdir í mig vegna stöðu lána sem hvíla á Gljúfraseli 10, 109 Rvk og sagðir þú að það væri vegna þess að verið væri að finna lausn á málum er varða lán (v/Xxxxxxxxxx).
Sagðir þú í símtalinu að stæði til að greiða inná lánið og finna farsæla lausn sem væri ásættanleg fyrir báða aðila í þessu leiðinda máli.
Nú kemur í ljós að einungis var gengið frá málum er varða hinn eigandann og eina lánið sem eftir stendur óbreytt er lánið sem hvílir á mínu húsi.
Þið hafið s.s afskrifað og afgreitt allt sem snýr að þeim aðilum sem eiga þessi lán en ætlið að láta mig taka ábyrgð á því sem ekki er mitt skv. skilnaðarpappírum.
Búið var að taka hús Xxxxxxx X. uppí lánin hjá SPRON og nú á greinilega að taka mitt hús líka og setja fjölskylduna mína á götuna.
Var ekki nóg að Xxxxxx missti sitt??
Hve langt þurfið þið að ganga til að skilja það sem er fyrir framan augun á ykkur? Það er ekki til fyrir þessu láni, það verður ekki greitt né um það samið og húsið stendur varla undir þeim lánum sem eru á fyrsta og öðrum veðrétt!
Er fjölskyldan mín minna mikilvæg en tölur á blaði hjá ykkur?
Er það forgangsröðunin sem þið getið verið stoltir af?
Þið Xxx hafið báðir sagt að það ætti að borga jafnt inná þessi tvö lán sem tekin voru á sama degi en ykkar orð eru greinilega ekki marktæk.
Ég biðst innilega afsökunar ef þú kýst að líta á þetta bréf sem móðgun eða árás af minni hálfu en hjá mér skiptir fólk meira máli en peningar og að orðum fylgir ábyrgð.
Ykkar ábyrgð felst í því að sjá mannlega þáttinn á bakvið exel skjölin ykkar og standa við það sem þið hafið sagt.


Með kveðju, Eyrún D. Ingadóttir


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband