Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Eldhúsdagsumræður
14.5.2014 | 18:37
Í kvöld eru eldhúsdagsumræður á alþingi og við það tækifæri hafa tunnur frá 2010 alltaf mætt á austurvöll barið tunnur og reynt að trufla þingheim við að mæra sjálfa sig og sína flokka og segja okkur hinum allskonar skröksögur. Við höfum gert allt sem í okkar valdi stendur til að trufla alþingi í að segja okkur endalausar lygar.
Upphaflega ætluðu þingmenn sjálfstæðis og framsóknarflokks að eigna sér mótmæli okkar og túlka sem ákall um að þeir kæmust til valda. Það höfum við leiðrétt eins og hægt er og á ekki að vera hægt að misskilja það á neinn hátt. Ástæðan fyrir því að við höfum ekkert skipulagt í kvöld er fyrst og fremst sú að fólk hefur ekki séð sér fært að mæta og styðja aðgerðir okkar um bætt kjör heimilanna. Einnig má benda að fólki var í lófa lagið að koma sér undan þessari stjórn fyrir ári síðan.
Það sem við hins vegar skiljum ekki er að fólk skuli sætta sig við að hafa laun undir lágmarksframfærslu (viðmið frá félagsmálaráðuneyti). Heilbrigðisþjónustan og velferðarkerfið yfir höfuð er í molum. Eigum við þá ósk heitasta að fólk fari að rísa upp gegn þessarri þróun. Ekki mun standa á okkur að styðja við slíkar aðgerðir. Hér á eftir tel ég upp nokkur mál sem við erum reiðubúnar að leggja lið:
LÁGMARKSFRAMFÆRSLA. Enginn íbúi þessa lands á að lifa af tekjum undir henni. Eitthvað er stórkostlega athugavert við það þegar ráðamenn þjóðarinnar verja stórfelldar launahækkanir til forstöðumanna ríkisstofnanna á sama tíma og þeir hvetja vinnuveitendur láglaunafólks til að stilla hækkunum (sem ekki einu sinni ná að vera leiðréttingar) í hóf.
EIGNARUPPTAKA Á HEIMILUM. Þennan lið mætti kalla fjárkúgun. Bankastofnanir og fjármálafyrirtæki mala gull þessa dagana og í bígerð er að reisa enn eina glæsihöllina fyrir Landsbankann okkar eins og hann var kallaður af bankastjóra á hátíðlegum kynningafundi um ný vinnubrögð sem sjáanlega engin hafa orðið. Slitastjórnir græða á tá og fingri og hvergi sér fyrir endann á störfum þeirra enda lítið vit í að slátra gæsinni sem verpir gulleggjunum (fyrir sig en ekki okkur hin). Fögur fyrirheit um heimsmet í leiðréttingum hafa breyst í heimsmet í seinagangi og svikum.
VELFERÐARKERFIÐ. Þar erum við að tala um nauðvörn. Heilbrigðiskerfið er gjörsamlega hrunið og hafið þið gert ykkur grein fyrir því að í skólakerfinu(skóli án aðgreiningar) er einungis gert ráð fyrir 13 sérkennslustundum á viku að hámarki hverjar sem sérþarfirnar eru. Er þetta ekki mannréttindabrot? Starfsfólk á heilbrigðis og umönnunarsviði vinna kraftaverk á hverjum degi undir ómanneskjulegu vinnuálagi og vanefnum sem minna helst á þriðja heiminn. Og gæti ég haldið endalaust áfram.
LÖGGÆSLA OG RÉTTARKERFI. Hver áfellisdómurinn af öðrum kemur undan teppinu.
Eins og þið sjáið er af nógu að taka og gæti ég skrifað margra síðna ritgerð. Okkar heitasta ósk er sú að fólk rísi upp og við verðum virkir þátttakendur í þeim aðgerðum
Hvað ef ..............?
11.4.2014 | 20:26
Við höfum svolítið velt fyrir okkur, horfum svolítið í eigin barm og lítum á hvert fyrir sig, hvort við höfum nokkru sinni hugsað út í það, af hverju samstaða okkar er ekki meiri en hún er. Og hvort ekki sé rétt að við hvert fyrir sig förum að forgangsraða, hvað hvert og eitt okkar telur skifta mestu máli fyrir íbúa í þessu landi en ekki endilega skuldara. Hvað er það sem við viljum?
Sú sem hér skrifar setur það skýrt fram að ég vil heilbrigðisþjónustu og menntakerfi fyrir alla án tillits til efnahags(heilbrigðisþjónusta algjörlega gjaldlaus). Og til að hafa efni á því hlýtur að vera hægt að skera niður í flottræfilshætti í utanríkisþjónustu og stjórnsýslu almennt. Ég vil að þjóðin sé öllum stundum algjörlega upplýst í hvað skattfé okkar fer.
Mér finnst líka mikilvægt að við sníðum okkar kerfi eftir okkar þörfum og séum ekki alltaf að apa eftir öðrum þjóðum sem búa kannski við aðrar aðstæður, aðrar þarfir og aðra samfélagsuppbyggingu. Mér finnst skifta miklu máli að allir þegnar landsins hafi kost á að búa við sómasamlegan húsakost, matarkost, hjúkrun, lyf, menntun og aðrar samfélagslegar grunnþarfir. Og enginn þegn þjóðfélagsins ætti að þurfa að taka á móti launaumslag sem mætir ekki lágmarksframfærslu.
Ég velti því oft fyrir mér hvort öfund og afbrýðisemi geri það að verkum að við stöndum ekki betur saman en raun ber vitni. Eða hvað:Getur verið að kúgun atvinnurekenda, lánadrottna og annarra persónulegra valdhafa ráði þarna. Getur verið að fólk sem hefur beðið persónulegt skipbrot á samfélagsstöðu sinni finni fyrir skömm á sínum aðstæðum. Eða er þeim sem betur standa alveg sama um skipbrot annarra kjör og aðstæður eða bara hreinlega að farast úr leti og sérhlífni.
Að síðustu vil ég segja:Einn fyrir alla og allir fyrir einn. Ég veit að þetta er gömul lumma en hún fer aldrei úr tísku hvað mig snertir. Við berum öll ábyrgð á samfélaginu og engin keðja er sterkari en veikasti hlekkurinn
Lýðræði
23.2.2014 | 00:04
Þegar stórt er spurt er fátt um svör. Þegar hinn litli heimur sem við búum í logar í ófriði og mótmælum gagnvart lýðræðislega kjörnum spilltum ríkisstjórnum, spyr maður sig kannski:Hvað er ólíkt með Úkraínu og Íslandi. Jú við höfum ekki her sem stjórnvöld geta beitt á móti okkur. Við höfum hins vegar lögreglu sem notuð er gegn okkur og ýmsir stjórnmálamenn hafa sýnt áhuga fyrir að vopnbúa.
Úkraínskur almenningur býr við sára fátækt og kúgun. Þegar litið er á meðallaun á Ísland verður ekki séð að hér ríki fátækt. Meðallaun eru nokkuð góð, en þegar grannt er skoðað (af okkur tunnum) kemur í ljós að einungis 16 prósent ná launum yfir meðaltali og skekkja meðallaun langt yfir raunveruleikann. Og kúgun þekkjum við ekki. Hér er engum persónuupplýsingum lekið, engin samskifti hleruð og stjórnvöld vinna algjörlega í takt við þjóðina í landinu. Rammaáætlun er virt en aðeins sveigð til eftir hvað þurfa þykir enda ekkert í húfi nema nokkrir landskikar sem er jú nóg af á þessu landi.
En hvað veldur því að uppúr sýður í Úkraínu:Getur verið að forseti landsins hafi verið lenda í sjónvarpsviðtali þar sem hann kom út eins og bjáni. Eða getur verið að utanríkisráðherrann hafi verið að setja lög sem gengu þvert á vilja landsmanna. Fór kannski íþróttamálaráðherrann í heimsókn sem landsmenn voru ekki sáttir við.Eða voru þeir að fikta við seðlabankann sinn. Eða var forsetinn að samþykkja stóra skattalækkun á sjálfan sig. Alla vega er ljóst að í Úkraínu er stór munur á stjórn og stjórnarandstöðu og aumingja forsetinn eingöngu að gera það sem hann taldi sig kosinn til að gera.
Maður spyr sig: er almenningur í Úkraínu svo öruggur með sína persónulegu stöðu að hann geti leyft sér að taka þátt í andófi eða er almenningur svo óöruggur með stöðu sína að hann telur sig engu hafa að tapa. Spyr sá sem ekki veit. Það er hins vegar ljóst að lögreglan þar vissi hvaða hóp hún tilheyrði. Og þegar við náum þeim stað á Íslandi stöðvar okkur ekkert.
Hvað er til ráða
4.2.2014 | 22:43
Komið sæl. Langt er síðan heyrst hefur í okkur.
Því hefur verið haldið fram meðal almennings að nýkjörin stjórnvöld þurfi tíma til að sanna sig. Einhvern veginn líður okkur þannig að hún sé búin að afsanna sig. Hver ræður eiginlega í þessu landi. Og þá á ég við: hver er það sem raunverulega stjórnar. Eru það lífeyrissjóðirnir bankarnir ríkisstjórnin eða stéttafélögin og samtök atvinnulífsins.
Hvar er okkar ábyrgð gagnvart lýðræðinu og að beita stjórnvöld aðhaldi. Eða er það viðunandi að hafa tekjur undir lágframfærslu. Og er það viðunandi að fólk hafi ekki húsaskjól heldur þurfi að hola sér niður á dýnu hjá ættingjum og vinum. Biðraðir eftir þjónustu hjálparstofnanna er þjóðarskömm. Og ekki er minni skömm að aðbúnaði eldri borgara sem eru í orðsins fyllstu merkingu tjóðraðir niður í rúmin sín vegna manneklu og matarföng sannarlega skorin við nögl. Er einhver sanngirni í þessu meðan fyrirtæki í okkar eigu (þ.e. lífeyrissjóðanna) skammtar stjórnendum sínum bónusgreiðslur og sposlur sem í þessu samhengi sem ég hef verið að lýsa eru í besta falli fáranlegar eða þá hlægilegar ef við viljum jákvætt orð.
Höfum við virkilega gefið stjórnvöldum það vopn að hræða okkur frá friðsömu andófi eins og var þeirra greinilega markmið í níumenningamálinu forðum og hinu nýja níumenningamáli Hraunavina. Borgaraleg óhlýðni og lögbrot eru í mínum augum sinn hvor hluturinn. Mér þykir við vera huglaus eða þá bara villt hvað við viljum. Ég myndi gjarnan vilja sjá í hvaða forgangi fólk vill hafa málin. Og það myndi gleðja mig meira en orð fá lýst, ef fólk væri tilbúið að fara að leggja öfund og afbrýðisemi á hilluna og fara að vinna saman í að fara að gera eitthvað í málunum.
Ég myndi vilja varpa þeirri spurningu fram með þessu bloggi: hvað viljum við, hvernig teljum við hægt að ná því fram og hvað erum við reiðubúin að leggja á okkur til að ná því fram